Gert er ráð fyrir að fyrsta lota Borgarlínu, í samræmi við nýsamþykktan Samgöngusáttmála, muni liggja um mörg mjög viðkvæm svæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem hugsanlegt er að hún geti valdið miklum, neikvæðum og óafturkræfum umhverfisáhrifum. Hér er um að ræða tengingu yfir Elliðaárnar, eftir Laugardalnum og niður á Hlemm, eftir Hverfisgötu og niður á Lækjartorg, eftir Lækjargötu og Fríkirkjuvegi, yfir Tjörnina á Skothúsvegi, upp að Landspítala og síðan yfir Fossvog, yfir á Kársnes og eftir því endilöngu að Hamraborg. Gert er ráð fyrir að Borgarlínan yfirtaki sumar af þessum götum algerlega þannig að önnur ökutæki þurfa þá að leita eitthvað annað, með auknu álagi á þær götur. (Gestur Ólafsson, Að reikna sig ráðalaus, Mbl. 30. október 2020)