fbpx

Meirihlutinn vill hagkvæmari borgarlínu

Meirihluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu eða 65% þeirra er andvígur því að akreinum verði fækkað vegna borgarlínu og ríflegur meirihluti eða 59% vill ekki að hámarkshraði bíla verði lækkaður.

Um 51% íbúa telur að umbætur á stofnbrautum séu líklegri til að draga úr umferðartöfum en umbætur á almenningssamgöngum með borgarlínu. Telur aðeins þriðjungur aðspurðra að borgarlína sé líklegri til að skila þeim árangri.

Um helmingur, eða 52%, telur jafnframt að umferðartafir séu mikið vandamál á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins fjórðungur eða 25% segja umferðartafir lítið vandamál. Af þeim sem taka afstöðu er því mikill meirihluti þeirrar skoðunar að umferðartafir skapi mikinn vanda.

Þá vekur sérstaka athygli að 44% aðspurðra telur að til séu hagkvæmari leiðir til að ná betri eða jafn góðum árangri við að bæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu en framkomnar tillögur um borgarlínu. Einungis 14% eru því ósammála og 42% tóku ekki afstöðu til spurningarinnar. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem tóku afstöðu er því þeirrar skoðunar, að fara megi hagkvæmari leiðir í uppbyggingu borgarlínu.

Þessar niðurstöður eru úr viðhorfskönnun sem Áhugahópur um samgöngur fyrir alla hefur látið gera, en auk þess sem spurt var út í afstöðu fólks til umferðartafa og framkvæmda vegna borgarlínu voru ferðavenjur og ferðamátar fólks kannaðir.

Hvað ferðavenjur snertir fara 79% aðspurðra að mestu um höfuðborgarsvæðið í einkabíl, 5% nota að mestu strætó og 6% reiðhjól, rafhjól eða rafhlaupahjól.

Þegar spurt var um hversu reglulega þeir sem tóku þátt í könnuninni myndu nota borgarlínu svöruðu 9% daglega, 11% 2-3svar í viku, 10% vikulega, 5% mánaðarlega, 16% sjaldnar og 29% aldrei.  Að frátöldum þeim sem vissu ekki eða vildu ekki svara telja 62% allra íbúa að þeir muni nota borgarlínu sjaldan eða aldrei.

Áhugahópurinn túlkar niðurstöður viðhorfskönnunarinnar sem eindregna áskorun til stjórnvalda um að uppbygging nýrrar borgarlínu verði löguð að hagkvæmari leiðum í framkvæmd. Minnir hópurinn á framkomnar tillögur um BRT lite almenningssamgöngukerfi – sem mun kosta minna, taka skemmri tíma í framkvæmd, skila svipuðu eða sama þjónustustigi og verður til muna auðveldara í aðlögun að verulegum tæknibreytingum næstu áratuga í samgöngum.

Nálgast má viðhorfskönnunina í heild sinni á vef áhugamannahópsins á samgongurfyriralla.com, ásamt tillögum hópsins að skilvirkari samgöngusáttmála fyrir höfuðborgarsvæðið, greiningum á tafakostnaði og öðrum tengdum gögnum. Viðhorfskönnunin var gerð 7. til 12. maí 2021 af MMR, Markaðs- og miðlarannsóknum og er unnin upp úr svörum 611 einstaklinga búsettum á höfuðborgarsvæðinu. Svara var aflað með netkönnun.

Frétt Áhugahóps um samgöngur fyrir alla um viðhorfskönnun MMR

Published by helgagudrun

:)

Leave a Reply

%d bloggers like this: